Sýnir færslur með efnisorðinu Brauðréttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Brauðréttir. Sýna allar færslur

sunnudagur, 17. apríl 2016

Pan con tomate

Tómatbrauð
1 snittubrauð
2-3 vel þroskaðir tómatar
1 hvítlauksrif
Góð ólífuolía
Sjávarsalt

Skerið brauðið í tvennt og kljúfið helmingana eftir endilöngu. Setjið í heitan ofn og bakið í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er stökkt.

Afhýðið hvítlauksrifið og nuddið brauðið með því (mér finnst koma passlegt hvítlauksbragð með því að strjúka tvisvar langsum yfir hvern helming).

Skerið tómatana í tvennt og hreinsið fræin úr þeim. Rífið á grófu rifjárni en passið að skilja hýðið eftir. Smyrjið tómatmaukinu jafnt yfir brauðið.

Sáldrið að lokum ólífuolíu og sjávarsalti yfir og skerið brauðið í hæfilegar sneiðar.

sunnudagur, 15. september 2013

Camembert brauðréttur


5-7 franskbrauðssneiðar - skorpan skorin af og brauðið skorið í litla bita
7 sneiðar skinka
1 camembert ostur
2 dl. rjómi
2-3 litir af papriku - skorin í litla bita

Smyrjið eldfast mót og setjið brauðið í botninn. Skinkan skorin í litla bita og sett ofan á. Camembert og rjómi sett í pott og látið bráðna saman. Gott getur verið að hræra ostasósuna saman með töfrasprota eða handþeytara. Ostinum hellt yfir brauðið og skinkuna og paprikubitunum dreift yfir. Bakað við við 160-170° í um 15 mínútur eða þar til rétturinn er heitur í gegn. Athugið að hann á ekki að brúnast.
Berið fram með rifsberjahlaupi

sunnudagur, 11. september 2011

Heitar ostasnittur

Snittur með ostablöndu 1 lítil dós majones
1 dós rækjusmurostur
1 dós sýrður rjómi
1 dós grænn aspas
1 skinkubréf
2 snittubrauð

Majones, smurostur og sýrður rjómi sett í skál og hrært saman. Vökvanum hellt af aspasnum, skinkan skorin í litla bita og blandað saman við ostahræruna. Snittubrauðin skorin í sneiðar og blöndunni smurt á brauðið. Bakað í 180° heitum ofni þangað til snitturnar hafa brúnast örlítið.

fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Pepperoni brauðréttur

Heitur brauðréttur 1/2 samlokubrauð
1 bréf pepperoni
1 blaðlaukur
250 gr. sveppir
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar
5 dl. matreiðslurjómi
1 mexíkó ostur
1 poki gratínostur

Skorpan skorin af brauðinu, það skorið í litla bita og sett í botninn á smurðu eldföstu móti. Pepperoni, blaðlaukur, sveppir og sólþurrkaðir tómatar er skorið smátt og blandað saman í skál. Gott er að blanda dálítilli olíu af tómötunum út í blönduna. Dreift yfir brauðið. Skerið mexíkó ostinn í bita og bræðið í potti ásamt rjómanum. Látið kólna örlítið, hellið svo blöndunni yfir brauðið og dreifið gratínostinum yfir. Bakið við 200°C í ca. 20 mínútur.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...