Sýnir færslur með efnisorðinu Franskir réttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Franskir réttir. Sýna allar færslur

föstudagur, 3. apríl 2015

Confit andalæri (Confit de Canard)

Confit andaleggir
6-8 andalæri með legg
2 matsk. sjávarsalt
1 tesk. svartur pipar
1 tesk. þurrkað timian
2 lárviðarlauf, mulin

Raðið andalærunum í einfalt lag í ofnpott eða eldfast mót og dreifið saltinu og kryddinu yfir. Látið standa í ísskáp í einn sólarhring.

Þurrkið mesta saltið af lærunum og setjið þau aftur í pottinn. Lokið pottinum og eldið við 160° í 3 klukkustundir. Takið lokið af pottinum og eldið lærin áfram í hálfa klukkustund. Látið standa í 20 mínútur og berið fram með kartöflugratíni og grænu salati.

Geymið fituna sem kemur þegar lærin eru elduð því hún er frábær til að elda ofnbakaðar kartöflur (Roast potatoes).

sunnudagur, 23. mars 2014

Eplabaka Unnar

Frönsk eplabaka
3 plötur smjördeig
1-2 epli
6 tesk. kanelsykur (eða eftir smekk)
1 egg til að pensla með

Skiptið smjördeigsplötunum í tvennt og fletjið hvern hluta út í ca. 15x20 cm ferhyrning. Afhýðið og kjarnhreinsið eplin og skerið þau í þunnar sneiðar. Raðið eplunum á annan helming hvers hluta og stráið einni teskeið af kanelsykri yfir. Brjótið saman til að loka bökunum og klemmið kantana vel saman með gaffli. Penslið með sundurslegnu eggi og bakið við 200° í um 20 mínútur eða þar til bökurnar eru fallega brúnaðar og eplin elduð í gegn.

Berið fram með þeyttum rjóma eða góðum ís.

miðvikudagur, 7. október 2009

Beikonbaka (Quiche Lorraine)

Quiche LorraineBotn:
1 bolli hveiti
80 gr. smjör
3 matsk. súrmjólk eða rjómi

Fylling:
200 gr. beikon
1 bolli rifinn ostur
1/2 smátt saxaður laukur
4 egg
1 peli rjómi
1/2 tesk. sjávarsalt
1/2 tesk. svartur pipar

Fletjið deigið út í bökudisk. Skerið beikon í bita og léttsteikið ásamt lauknum. Dreifið beikoni, lauk og osti yfir bökubotninn, þeytið saman egg, rjóma og krydd og hellið yfir. Bakið við 175° í 45 mínútur.

föstudagur, 1. ágúst 2008

Frönsk tómatbaka

Smjördeigsbaka með tómötum
375 gr. smjördeig
150 gr. mascarpone ostur
50 gr. rifinn parmesan ostur
12-14 tómatar
salt, pipar, ólífuolía

Pestó:
50 gr. basil (eingöngu laufin)
2 hvítlauksrif, söxuð
3 matsk. ólífuolía
3 matsk. furuhnetur
3 matsk. rifinn parmesan ostur

Byrjið á að búa til pestóið, allt sett í matvinnsluvél og maukað. Bragðbætt með salti ef þarf.

Smjördeigið flatt út í 25x35 sentimetra ferning og sett á bökunarplötu. Mascarpone, parmesan og helmingurinn af pestóinu hrært saman og smurt yfir smjördeigið, 2 sentimetra kantur skilinn eftir. Tómatarnir skornir í sneiðar og raðað þétt yfir, fyrsta og síðasta sneiðin eru ekki notaðar. Salti, pipar og ólífuolíu dreift yfir og bakað við 200° í 40 mínútur. Þá er hitinn lækkaður í 150° og bakað áfram í 30 mínutur. Áður en bakan er borin fram er afganginum af pestóinu dreift yfir.

þriðjudagur, 25. mars 2008

Önd í appelsínusósu

Appelsínuönd
6-8 andarbringur
1/2 dl. sykur
2 matsk. vatn
2 matsk. sherry edik
3,5 dl. appelsínusafi
4 skalotlaukar, saxaðir
3,5 dl. kjúklingasoð
50 gr. smjör
4 appelsínur

Sjóðið saman sykur og vatn þar til það er orðið að sírópi, um 8 mínútur. Takið af hitanum og hrærið edikinu saman við. Bætið appelsínusafanum og lauknum við og látið sjóða í um 15 mínútur eða þar til um hálfur bolli er eftir. Bætið þá kjúklingasoðinu við og sjóðið í hálftíma eða þar til um 3/4 bolli er eftir af sósunni.
Skerið börkinn af appelsínunum og skerið aldinkjötið innan úr himnunum.
Bætið smjörinu í sósuna og setjið appelsínubitana út í rétt áður en hún er borin fram.

Ristið í fituna á andarbringunum og setjið þær á heita pönnu. Steikið í 10 mínútur á fituhliðinni og 8 mínútur á hinni. Látið standa í 10 mínútur áður en þær eru bornar fram með sósunni.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...