Sýnir færslur með efnisorðinu Pastaréttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Pastaréttir. Sýna allar færslur

þriðjudagur, 16. ágúst 2016

Smjördeigsbaka með penne pasta og mascarpone osti

Penne pastabaka með mascarpone osti 320 gr. smjördeig
300 gr. penne pasta
250 gr. mascarpone ostur
60 gr. rifinn parmesan ostur
80 gr. smjör
250 gr. sveppir
1 stór blaðlaukur
1 rautt chili
salt og svartur pipar

Byrjið á að sjóða pastað um tveimur mínútum skemur en sagt er til á pakkanum.

Skerið sveppi og blaðlauk í sneiðar og steikið við vægan hita í smjörinu. Setjið smátt saxað chili saman við og blandið grænmetinu saman við mascarpone ostinn. Bætið helmingnum af rifna parmesan ostinum saman við ásamt pastanu og bragðbætið með salti og pipar.

Fletjið smjördeigið þunnt út og setjið í 24 sm smelluform. Pikkið deigið með gaffli og hellið pastafyllingunni í deigskelina. Dreifið afganginum af rifna parmesan ostinum yfir og brjótið hliðarnar á smjördeiginu yfir fyllinguna. Bakið við 200° í um 30 mínútur.

Berið fram með góðu salati og rifnum parmesan osti.

miðvikudagur, 4. nóvember 2015

Cannelloni með spínati

Cannelloni með spínatfyllinguSósa:
2 dósir saxaðir niðursoðnir tómatar
1 tesk. sjávarsalt
1 tesk. svartur pipar
1 tesk. þurrkað oregano

Fylling:
200 gr. rjómaostur
450 gr. frosið spínat
1 egg
1 eggjarauða
1 tesk. salt
1 tesk. svartur pipar

1 askja fersk lasagna blöð
150 gr. rifinn ostur

Setjið tómata og krydd í pott og sjóðið þar til tómatarnir þykkna og mynda góða sósu.

Sjóðið spínat samkvæmt leiðbeiningum á pakka og kreistið úr því allan umfram vökva. Blandið því saman við rjómaostinn, hrærið eggi og eggjarauðu saman við ásamt salti og pipar. Skerið lasagna plöturnar í ca. 8 hluta, skiptið fyllingunni á milli þeirra og rúllið upp.

Setjið helminginn af tómatsósunni í smurt eldfast mót og raðið pastarúllunum ofan á. Dreifið afganginum af tómatsósunni yfir og að lokum rifna ostinum. Bakið við 180° í um 45 mínútur.

Berið fram með rifnum parmesan osti og góðu salati.

laugardagur, 22. ágúst 2015

Spaghetti með smokkfisk og chili

Pasta með smokkfisk og chili 500 gr. smokkfiskur (notið heila boli - ekki hringi)
4 rauð chili
8 stór hvítlauksrif
1 búnt basilíka
50 gr. smjör
4 matsk. ólífuolía
400 gr. spaghetti
salt og svartur pipar

Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Geymið 1 dl. af soðvatninu til að bæta út í réttinn.

Saxið chili og hvítlauk smátt (hreinsið fræin úr chilinu) og eldið við vægan hita í smjörinu og olíunni í nokkrar mínútur. Gætið þess vel að hvítlaukurinn brúnist ekki. Skerið smokkfiskinn í bita og bætið honum á pönnuna ásamt basilíkunni. Hækkið hitann og eldið í 1-2 mínútur eða þar til smokkfiskurinn er eldaður.

 Bætið spaghettinu saman við ásamt soðvatninu og blandið vel saman. Bragðbætið með salti og pipar og berið réttinn fram með fersku salati og góðu brauði.

Á Ítalíu tíðkast ekki að borða parmesan ost með sjávarréttum en okkur finnst það mjög gott og mælum með rifnum parmesan osti með þessum rétti!

þriðjudagur, 9. júní 2015

Sveppa Carbonara

Spaghetti með sveppum 400 gr. spaghetti
250 gr. sveppir
30 gr. þurrkaðir sveppir
50 gr. smjör
6 egg
1 dl. rjómi
100 gr. rifinn ostur
50 gr. rifinn parmesan ostur
Pipar og salt

Byrjið á að leggja þurrkuðu sveppina í bleyti samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Saxið fersku sveppina og steikið í smjörinu. Blandið þurrkuðu sveppunum saman við og steikið áfram í nokkrar mínútur.
Hrærið egg og rjóma saman í skál og saltið lítillega. Sjóðið spaghetti, hellið vatninu frá og setjið aftur í pottinn. Blandið sveppum, rifnum osti og parmesan osti saman við, setjið pottinn aftur á helluna, hellið eggjahrærunni yfir og hrærið stöðugt. Athugið að eggin eiga að þykkna við hitann frá spaghettinu en ekki að "skramblast".
Setjið í skál og kryddið vel með svörtum pipar og rifnum parmesanosti.

sunnudagur, 26. október 2014

Blaðlauks lasagne

Blaðlauks lasagna
1 stór blaðlaukur
200 gr. spínat
2 hvítlauksrif
12 lasagne plötur
100 gr. rifinn ostur
salt og pipar

Sósa:
50 gr. smjör
2 matsk. hveiti
2,5 dl. mjólk
200 gr. kotasæla (ein lítil dós)
1/4 tesk. rifið múskat
salt og pipar

Skerið blaðlaukinn í sneiðar og látið krauma í 3-4 mínútur. Bætið þá spínatinu og hvítlauknum við og steikið í 2 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar.

Útbúið sósuna með því að bræða smjörið og hræra hveitinu saman við. Hellið mjólkinni smátt og smátt saman við og hrærið stöðugt í á meðan. Látið sjóða við vægan hita í 4-5 mínútur og gætið þess að sósan brenni ekki við. Bætið kotasælunni og múskatinu saman við og bragðbætið með salti og pipar.

Setjið 1/4 af hvítu sósunni í eldfast mót. Dreifið 1/3 af blaðlauksblöndunni yfir og raðið lasagne plötum ofan á. Endurtakið þar til allt er búið, endið á lasagne plötum og hvítri sósu. Stráið rifna ostinum yfir og bakið við 180° í 25-30 mínútur.

miðvikudagur, 26. febrúar 2014

Spaghetti með sítrónusósu

Sítrónupasta
500 gr. spaghetti
1 sítróna
100 gr. smjör
2,5 dl. rjómi
1 bolli rifinn parmesan ostur
salt og pipar

Sjóðið spaghettið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Setjið smjörið í pott og bræðið við vægan hita. Hellið rjómanum saman við og látið suðu koma upp. Rífið börkinn af sítrónunni og setjið hann ásamt safanum út í rjóma- og smjörblönduna. Hitið að suðu. Þegar spaghettið er soðið er það sigtað og sett í  stóra skál. Sósunni hellt yfir og blandað vel. Parmesan osturinn settur saman við og saltað og piprað eftir smekk.
Gott er að bera spaghettið fram með grænu salati og ristuðum fræjum.

miðvikudagur, 21. nóvember 2012

Grænmetislasagne

Grænmetislasanja Sósa:
2 dósir niðursoðnir tómatar
3 hvítlauksrif
1 laukur
1 tesk. timian
1 dl. vatn
2 matsk. olía
salt og pipar
Saxið laukinn og hvítlaukinn og látið krauma í olíunni í stutta stund.
Setjið timian, vatn, og tómata saman við og kryddið til með salti og pipar. Látið sósuna sjóða rólega í 30 mínútur og maukið hana síðan.

Lasagna:
1 rauðlaukur
250 gr. gulrætur
150 gr. kúrbítur
300 gr. spergilkál
1 rauð paprika
100 gr. ristaðar casew hnetur
500 gr. kotasæla
10-12 lasagnablöð (eða eins og þarf í formið)
100 gr. rifinn parmesanostur
200 gr. rifinn ostur
Saxið grænmetið og sjóðið í 3-4 mínútur í saltvatni. Hellið vatninu af og blandið grænmetinu saman við tómatsósuna. Setjið til skiptis í eldfast mót: sósu, lasagnablöð og kotasælu. Parmesan ostur og casew hnetur settar á milli. Að lokum er rifna ostinum stráð yfir og bakað við 180 gráður í 40 mínútur eða þar til osturinn hefur tekið góðan lit.

fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Túnfiskpasta

Pastabaka með túnfiski 500 gr. pasta
1 laukur
2 dósir niðursoðnir tómatar
2 dósir túnfiskur
1 dós maískorn
2 tesk. sjávarsalt
2 tesk. oregano
svartur pipar
200 gr. rifinn ostur

Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
Laukurinn skorinn smátt og mýktur í örlítilli olíu. Tómötunum hellt á pönnuna og látið sjóða í nokkrar mínútur. Kryddi og maiskorni blandað saman við og að lokum túnfisknum. Hrærið soðnu pastanu saman við, setjið í eldfast mót og dreifið rifna ostinum yfir. Bakið við 200° í 20-30 mínútur.

laugardagur, 7. maí 2011

Grískt pastasalat

350 gr. penne pasta
1 kíló vel þroskaðir tómatar
1 blaðlaukur
1 krukka fetaostur í olíu
1 búnt dill
Salt og pipar

Skerið tómatana í tvennt, takið fræin innan úr þeim og saxið þá svo smátt. Saxið blaðlaukinn smátt ásamt dillinu og hrærið saman við tómatana. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum og setjið það heitt saman við grænmetið. Blandið að lokum fetaostinum og olíunni saman við, saltið og piprið eftir smekk og borðið með góðu brauði.

laugardagur, 27. mars 2010

Tortellini með spínati og beikoni

500 gr. tortellini
100 gr. ferskt spínat
300 gr. steikt beikon
2 dl. rifinn parmesan ostur
2 dl. ólífuolía
1 dl. bragðlítil olía
4 hvítlauksrif
1 tesk. þurrkað basil
salt og pipar

Tortellini soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka (ef vill má nota aðra pastategund). Spínat, beikon, hvítlaukur, basil og olía sett í matvinnsluvél og maukað. Ostinum blandað saman við og kryddað með salti og pipar ef þarf.
Að lokum er soðnu pastanu blandað saman við.

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Veislupasta

Pastaréttur með skinku 500 gr. pastaslaufur
200 gr. skinka
1 1/2 paprika, skorin í bita
200 gr. rjómaostur
3 hvítlauksrif
250 gr. beikon
200 gr. sneiddir sveppir
1 peli rjómi
steinselja, salt og pipar

Skinka og beikon sneitt og steikt. Grænmeti bætt á pönnuna og látið krauma svolitla stund. Rjóma, osti og hvítlauk bætt við og látið sjóða. Pastað soðið og sett saman við, kryddað að vild.
Borið fram með salati og brauði.

laugardagur, 24. janúar 2009

Spaghetti með kræklingi

Kræklingur í tómatsósu
Uppskriftin er fyrir tvo

250 gr. spaghetti
450 gr. kræklingur í skel
1 laukur
4 hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar eða 500 gr. ferskir tómatar
2 matsk. tómatpuree
1 búnt steinselja, smátt söxuð
salt og pipar

Saxið laukinn smátt og merjið hvítlaukinn. Mýkið í ólífuolíu í ca. 5 mínútur. Bætið þá tómötunum á pönnuna og sjóðið við vægan hita í ca. 15 mínútur. Ef notaðir eru ferskir tómatar þarf að taka af þeim hýðið og saxa þá gróft. Bætið þá kræklingnum við og látið sjóða undir loki í ca. 5 mínútur. Að lokum helmingnum af steinseljunni hrært saman við ásamt soðnu spaghettinu, restinni af steinseljunni er svo stráð yfir réttinn áður en hann er borinn fram.

föstudagur, 12. september 2008

Penne með graskeri og sveppum

Pasta með graskeri og sveppum
300 gr. penne pasta
1 grasker (butternut squash)
1 rauðlaukur
150 gr. sveppir
4 hvítlauksrif
1 tesk. oregano
salt, pipar, ólífuolía

Sósa:
1 matsk. ólífuolía
1 laukur
1 dl. hvítvín
1.5 dl. rjómi
salt og pipar

Graskerið afhýtt, skorið í bita og sett í ofnskúffu. Rauðlaukur og sveppir skorin í sneiðar og sett ofan á graskerið. Hvílaukurinn marinn og dreift yfir. Ólífuolíu dreypt yfir ásamt kryddinu. Bakað við 200° í 30-40 mínútur, hrært í nokkrum sinnum.

Á meðan grænmetið er eldað er sósan búin til. Laukurinn saxaður smátt og eldaður í ólífuolíunni þar til hann er mjúkur en hefur ekki brúnast. Hvítvíninu hellt saman við og látið sjóða í nokkrar mínútur eða þar til vínið hefur soðið niður um rúmlega helming. Rjómanum bætt við og látið sjóða nokkrar mínútur eða þar til sósan er þykk. Bragðbætt með salti og pipar.

Blandið soðnu pastanu saman við sósuna ásamt 3/4 af grænmetinu. Sett á stóran disk og afganginum af grænmetinu dreift yfir.

sunnudagur, 23. mars 2008

Engiferkjúklingur

Engiferkjúlli
Ótrúlega góður kjúklingaréttur sem við fengum í matarboði fyrir nokkrum árum.

1 kg. kjúklingabringur
500 gr. tagliatelle
120 gr. ferskur engifer
2 hvítlauksrif, marin
1/2 l. matreiðslurjómi
1 matsk. fljótandi kjúklingakraftur
salt og pipar

Afhýðið engiferinn og rífið niður. Kjúklingur skorinn í litla bita og léttsteiktur á pönnu. Bætið hvítlauk og engifer út í og því næst matreiðslurjóma og kjúklingakrafti. Látið malla saman í smástund og bragðbætið með salti og pipar ef þurfa þykir. Sjóðið pastað, setið það á fat og hellið kjúklingasósunni yfir. Skreytið með ferskri steinselju.

mánudagur, 3. mars 2008

Pasta mammolara

Bakað tortellini með hakki
1 kg. hakk
2 dósir niðursoðnir tómatar
salt, pipar, ítalskt krydd, lárviðarlauf
500 gr. kotasæla
500 gr. tortellini
200 gr. rifinn ostur

Hakkið steikt á pönnu, tómatarnir settir út á, kryddað og látið sjóða í klukkustund. Bætið vatni á pönnuna ef þarf.
Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
Hrærið kotasælunni saman við kjötsósuna, blandið soðnu tortellini saman við, dreifið rifna ostinum yfir og bakið við 200° í um 30 mínútur.

mánudagur, 18. febrúar 2008

Spaghetti með kjötbollum

Pasta með kjötbollum
Bollur:
500 gr. hakk
4 franskbrauðsneiðar, fínt hakkaðar
1 bolli rifinn ostur
2 egg
salt og pipar
Öllu hnoðað saman í höndum. Búnar til litlar bollur sem eru steiktar á pönnu.

Sósa:
2 dósir niðursoðnir tómatar
1 lítil dós tómatpurre
1 laukur
3 hvítlauksrif
2 tesk. sykur
salt, pipar, italian seasoning
Allt sett í pott, látið krauma við lágan hita í 15 mínútur og síðan maukað. Bollurnar látnar út í og hitað þar til þær eru heitar í gegn.

Borið fram með spaghetti og salati.

miðvikudagur, 10. október 2007

Spaghetti Carbonara

Pasta Carbonara
500 gr. spaghetti
250 gr. beikon
6 egg
1 dl. rjómi
100 gr. rifinn ostur
Pipar og salt
Parmesanostur

Skerið beikonið í litla bita og steikið. Hrærið egg og rjóma saman í skál og saltið lítillega. Sjóðið spaghetti, hellið vatninu frá og setjið aftur í pottinn. Blandið beikoni og rifnum osti saman við, setjið pottinn aftur á helluna, hellið eggjahrærunni yfir og hrærið stöðugt. Athugið að eggin eiga að þykkna við hitann frá spaghettinu en ekki að "skramblast". Setjið í skál og kryddið vel með svörtum pipar og rifnum parmesanosti.

þriðjudagur, 11. september 2007

Spínat lasagne

Spínatlasagna
12-15 lasagne plötur
600 gr. frosið spínat (eða 1 kg. ferskt)
150 gr. rjómaostur
150 gr. kotasæla
salt, pipar, múskat

Bechamel sósa:
75 gr. smjör
4 matsk. hveiti
5 dl. mjólk
salt og pipar

Ofan á:
2 dl. rifinn ostur
1/2 dl. rifinn parmesan ostur

Setjið spínatið í pott og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Kreistið mesta vökvann úr því og blandið saman við kotasæluna, rjómaostinn og kryddið.

Bræðið smjörið, hrærið hveitinu saman við og látið sjóða í nokkrar mínútur. Bætið mjólkinni í og látið sjóða þar til sósan þykknar. Kryddið með salti og pipar.

Setjið þunnt lag af bechamel sósu í botninn á eldföstu móti, lasagne plötur þar yfir, þriðjung af spínatblöndunni og bechamel sósu þar yfir. Endurtakið og dreifið að lokum rifna ostinum og parmesan ostinum yfir.

Bakið við 180° í um 30 mínútur.

Borið fram með hvítlauksbrauði og salati.

föstudagur, 31. ágúst 2007

Tagliatelle með reyktum laxi og spínati

pasta með reyktum laxi og spínati

300 gr spínat
4 hvítlauksrif, marin eða söxuð mjög fínt
500 gr. reyktur lax, skorinn í frekar litla bita
2 tesk. múskat
1 tesk. svartur pipar
2 dl rjómi
500 gr. tagliatelle
2 msk ólífuolía
1 dl ferskur parmesan ostur

Hitið hvítlaukinn olíunni þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið spínatinu út í ásamt kryddinu. Hellið rjómanum út í ásamt parmesanostinum og látið malla þar til sósan fer að þykkna. Bætið reykta laxinum út í ásamt soðnu pastanu.
Borið fram með parmesanosti

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Lasagne með kjötbollum

lasanja með kjötbollum
Kjötsósa:
1/2 kg. lambahakk
1 laukur smátt saxaður
2 hvítlausrif
2 dósir niðursoðnir tómatar
1/2 búnt steinselja
1/2 tesk. oregano
salt og pipar

Kjötbollur:
1/2 kg. lambahakk
1 egg
50 gr. brauðrasp
1/2 dl. rifinn parmesanostur
1/2 búnt steinselja
2 hvítlauksrif
salt og pipar

Bechamel sósa:
50 gr. smjör
50 gr. hveiti
600 - 700 ml. mjólk
1/2 dl. rifinn parmesanostur
salt, pipar og rifið múskat

300 gr. lasagneplötur

Ofan á:
1 mozzarella kúla
1/2 dl. rifinn parmesanostur

Steikið lauk og hvítlauk þar laukurinn er mjúkur. Bætið hakkinu við og steikið þar til það er vel brúnað. Bætið þá tómötum og kryddi við og látið malla í um 1 klukkustund.

Hnoðið allt sem á að fara í bollurnar vel saman í höndunum og mótið litlar kjötbollur. Látið þær bíða í ísskáp í um 30 mínútur og steikið svo á pönnu þar til þær eru fallega brúnaðar á öllum hliðum.

Bræðið smjörið og hrærið hveitinu saman við. Látið sjóða í 2-3 mínútur. Bætið mjólkinni smátt og smátt saman við og látið malla í nokkrar mínútur. Hrærið í pottinum allan tímann. Kryddið og blandið rifna ostinum saman við.

Setjið í eldfast mót 1/3 af kjötsósunni, helminginn af kjötbollunum, 1/3 af bechamel sósunni og helminginn af lasagneplötunum. Endurtakið og endið á afganginum af kjötsósunni og bechamel sósunni. Dreifið ostinum yfir og bakið við 175° í 30-40 mínútur.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...