þriðjudagur, 15. desember 2015

Sítrónusmákökur með hvítu súkkulaði

Smákökur með hvítu súkkulaði og sítrónu
1 2/3 bolli hveiti
1/2 tesk. lyftiduft
1/2 tesk. salt
1 1/2 tesk. maizenamjöl
1/2 tesk. vanilluduft
1/2 bolli sykur
1/3 bolli púðursykur
200 gr. smjör
1 egg
rifinn börkur af tveimur sítrónum
safi úr einni sítrónu
1 poki (150 gr.) hvítir súkkulaðidropar eða saxað hvítt súkkulaði

Setjið þurrefnin í skál og blandið saman. Bætið smjöri, eggi, sítrónuberki og sítrónusafa saman við og hrærið þar til deigið er samfellt. Bætið þá súkkulaðinu saman við og hrærið vel.

Setjið deigið með tveimur teskeiðum á pappirsklædda bökunarplötu og bakið við 180° í um 10 mínútur.

Gætið þess að ofninn sé vel heitur þegar kökurnar eru settar inn því annars er hætta á að þær renni of mikið út.

mánudagur, 16. nóvember 2015

Laukbaka

Laukbaka Botn:
1 bolli hveiti
80 gr. smjör
3 matsk. súrmjólk eða rjómi

Fylling:
4 laukar
4 hvítlauksrif
1 tesk. svartur pipar
1/2 tesk. þurrkað timian
1 bolli rifinn ostur
4 egg
2,5 dl. rjómi
1 matsk. hveiti
1 tesk. sjávarsalt
1/2 tesk. Dijon sinnep

Hnoðið saman hveiti smjör og súrmjólk - gott er að gera þetta í hrærivél eða matvinnsluvél. Fletjið deigið út í bökudisk og bakið undir fargi við 175° í 30 mínútur.

Saxið lauk og hvítlauk og steikið við vægan hita þar til laukurinn er mjúkur. Kryddið með möluðum pipar og timian.

Dreifið ostinum og lauknum yfir bökubotninn. Þeytið egg, rjóma, hveiti, salt og sinnep og hellið yfir.

Bakið við 175° í um 45 mínútur

miðvikudagur, 4. nóvember 2015

Cannelloni með spínati

Cannelloni með spínatfyllinguSósa:
2 dósir saxaðir niðursoðnir tómatar
1 tesk. sjávarsalt
1 tesk. svartur pipar
1 tesk. þurrkað oregano

Fylling:
200 gr. rjómaostur
450 gr. frosið spínat
1 egg
1 eggjarauða
1 tesk. salt
1 tesk. svartur pipar

1 askja fersk lasagna blöð
150 gr. rifinn ostur

Setjið tómata og krydd í pott og sjóðið þar til tómatarnir þykkna og mynda góða sósu.

Sjóðið spínat samkvæmt leiðbeiningum á pakka og kreistið úr því allan umfram vökva. Blandið því saman við rjómaostinn, hrærið eggi og eggjarauðu saman við ásamt salti og pipar. Skerið lasagna plöturnar í ca. 8 hluta, skiptið fyllingunni á milli þeirra og rúllið upp.

Setjið helminginn af tómatsósunni í smurt eldfast mót og raðið pastarúllunum ofan á. Dreifið afganginum af tómatsósunni yfir og að lokum rifna ostinum. Bakið við 180° í um 45 mínútur.

Berið fram með rifnum parmesan osti og góðu salati.

laugardagur, 31. október 2015

Puri - Djúpsteikt indverskt brauð

Puri 200 gr. gróft spelt
1 tesk. sjávarsalt
1 - 1 1/2 dl. kalt vatn
1 matsk. brætt smjör eða olía
500 gr. djúpsteikingarfeiti

Setjið spelt og salt í skál og hnoðið vatninu smám saman við þar til úr verður samfellt deig. Bætið smjörinu við og hnoðið áfram þar til það hefur samlagast deiginu. Látið deigið bíða í 20 mínútur.

Hitið djúpsteikingarolíuna í potti, best er að potturinn sé ekki of stór. Skiptið deiginu í 8-10 bita, og fletjið hvern bita út í þunna kringlótta köku á hveitistráðu borði. Mér finnst gott að fletja hverja köku út rétt áður en hún er steikt.

Steikið eina köku í einu í djúpsteikingarolíunni í 1 - 1 1/2 mínútu. Snúið kökunum þegar steikingartíminn er hálfnaður. Meðan kökurnar eru steiktar er mikilvægt að ausa feiti yfir þær til að tryggja að steikingin verði jöfn.

Setjið kökurnar á eldhúspappír til að draga úr þeim umfram olíu og berið þær fram heitar eða volgar sem meðlæti með indverskum réttum.

sunnudagur, 11. október 2015

Pizza með fíkjum og gráðosti

Pizza með gráfíkjum og gráðaosti
1 pizzabotn (ekki stór)
1/2 matsk.tómatpure
1/2 matsk. rjómaostur
1 kúla mozzarella ostur
3 - 4 þurrkaðar gráfíkjur
30 gr. gráðostur
1/2 dl. ósaltar pistasíuhnetur
1/2 dl. rifinn ostur
Ferskt klettasalat

Blandið saman tómatpure og rjómaosti og smyrjið yfir pizzabotninn. Skerið mozzarella ostinn í þunnar sneiðar og raðið yfir. Skerið fíkjurnar í sneiðar og dreifið þeim yfir botninn ásamt muldum gráðosti og söxuðum pistasíuhnetum. Dreifið að lokum rifna ostinum yfir.

Bakið við 200° í 15 - 20 mínútur og berið fram með fersku klettasalati og hvítlauksolíu.

fimmtudagur, 8. október 2015

Malasísk maískjúklingasúpa

Malasísk maís og kjúklingasúpa 300 gr. beinlaus kjúklingur
1 eggjahvíta
2 matsk. vatn
2 dósir maísbaunir
1 líter kjúklingasoð
2 tesk. sojasósa
2 tesk. sesamolía
1 1/2 matsk. maísmjöl
60 ml. auka vatn

 Hakkið kjúklinginn, setjið hann ásamt eggjahvítu og vatni í skál og látið standa í 10 mínútur.

Hellið vökvanum af maisbaununum og hakkið þær. Setjið maísinn, kjúklingasoðið, sojasósu og sesamolíu í pott. Komið upp suðu og látið sjóða án loks í 3 mínútur. Hrærið saman maismjöl og vatn og setjið saman við súpuna. Hrærið í þar til súpan þykknar.

Blandið kjúklingablöndunni saman við og látið súpuna sjóða við vægan hita í 2 mínútur. Hrærið í súpunni allan tímann.

laugardagur, 3. október 2015

Gulrótabaka með trönuberjum

Gulrótabaka með trönuberjum Botn:
180 gr. kalt smjör
250 gr. spelt
1 tesk. sjávarsalt
1/2 - 1 dl. kalt vatn

Fylling:
500 gr. gulrætur
2 matsk. rifinn engifer
1 matsk. cumin fræ
1 matsk. kóríanderfræ
50 gr. smjör
1 dl. þurrkuð trönuber
salt og pipar eftir smekk

Eggja- og rjómablanda:
3 1/2 dl. rjómi
2 egg
1/2 tesk. sjávarsalt

Skerið smjörið í teninga, hrærið því saman við speltið og saltið. Bætið vatni eins og þarf til að deigið verði samfellt en varist að hræra of lengi. Fletjið deigið út og setjið í bökuform. Bakið undir fargi við 180° í 30 mínútur.

Rífið gulræturnar gróft og mýkið í smjörinu í u.þ.b. 5 mínútur ásamt engifernum og kryddinu. Blandið þá trönuberjunum saman við og hitið. Bragðbætið með salti og pipar.

Setjið fyllinguna í bökubotninn og hellið eggjablöndunni yfir. Bakið við 180° í 30 mínútur.

Best er að leyfa bökunni að kólna lítillega áður en hún er borin fram - gjarna með góðri graslaukssósu.

miðvikudagur, 16. september 2015

Rauðrófubuff

Rauðrófubuff 300 gr. rauðrófur
200 gr. gulrætur
1 blaðlaukur
1 dl. haframjöl
1/2 dl. sesamfræ
2 tesk. sjávarsalt
1 tesk. pipar
3 - 4 egg

Afhýðið rauðrófur og gulrætur og rífið smátt ásamt blaðlauknum. Setjið í skál og hrærið haframjöli, sesamfræjum, kryddi og eggjum saman við. Byrjið á að setja þrjú egg og bætið því fjórða við ef deigið er of þurrt.

Setjið deigið með matskeið á heita pönnu og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið eða þar til buffin eru fallega brúnuð og steikt í gegn.

laugardagur, 12. september 2015

Marenskaka með súkkulaðimús og saltlakkrískaramellu

Marengs með súkkulaðimús og saltlakkrískaramellu
Uppskriftina að þessari frábæru köku fékk ég hjá Helenu systur minni.

Botn:
3 eggjahvítur
100 gr. púðursykur
50 gr. sykur
1 tesk. lyftiduft
100 gr. Rice crispies

Þeytið eggjahvíturnar, bætið sykrinum og púðursykrinum við og þeytið vel. Stráið lyftiduftinu yfir Rice crispies og blandið varlega saman við eggjablönduna. Setjið í pappírsklætt smelluform og bakið við 150° í eina og hálfa klukkustund.

Súkkulaðimús:
150 gr. suðusúkkulaði
50 gr. smjör
3 eggjarauður
50 gr. flórsykur
4 dl. rjómi

Bræðið saman smjör og súkkulaði og kælið lítillega. Hrærið saman eggjarauður og flórsykur og blandið saman við súkkulaðiblönduna. Þeytið rjómann og blandið varlega saman við. Dreifið súkkulaðimúsinni yfir marensbotninn þegar hann hefur kólnað alveg og geymið kökuna í kæli þar til hún er borin fram.

Lakkrískaramella:
50 gr. smjör
100 gr. púðursykur
4 matsk. síróp
1 tesk. vanillusykur
2 1/2 dl. rjómi
140 gr. Piratos lakkríspeningar frá Haribo
1/2 líter sjóðandi vatn

Bræðið smjörið í potti, bætið púðursykri og sírópi við og látið sjóða í 3-5 mínútur. Bætið vanillusykri og rjóma við og látið sjóða í 5 mínútur til viðbótar. Í öðrum potti eru lakkríspeningarnir soðnir í vatninu þar til þeir eru alveg leystir upp og blandan orðin að þykku sírópi. Það getur tekið allt að 45 mínútum. Lakkríssírópinu er blandað við karamelluna, leyft að kólna dálítið og dreift yfir kökuna áður en hún er borin fram.

laugardagur, 5. september 2015

Gróft brauð með fræjum og döðlum

döðlubrauð
4 dl. spelt
2 dl. haframjöl
2 tesk. lyftiduft
1/2 tesk. matarsódi
1 dl. sólblómafræ
1 dl. graskersfræ
1/2 dl. möluð hörfræ
1/2 dl. sesamfræ
1 dl. saxaðar döðlur
2 tesk. sjávarsalt
4-5 dl. AB mjólk

Blandið þurrefnum og fræjum saman. Bætið döðlunum saman við og hrærið. Bætið þá AB mjólkinni við og hrærið þar til allt hefur blandast vel en gætið þess þó að hræra deigið ekki of mikið.

Setjið í smurt og pappírsklætt form, stráið einni matskeið af haframjöli yfir og bakið við 180° í 50-60 mínútur eða þar til brauðið er bakað.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...