fimmtudagur, 19. febrúar 2015

Sprengidagsbaunir

Baunasúpa
1 pk. baunir (500 gr.)
1 1/2 líter vatn
1 laukur
1 blaðlaukur
1 rautt chili
4 hvítlauksrif
1 tesk. svartur pipar
1 kg. saltkjöt
500 gr. gulrætur
1 rófa

Leggið baunirnar í bleyti í að minnsta kosti 5 klukkustundir - helst yfir nótt. Sigtið þær og setjið í pott ásamt vatni, lauk, chili, hvítlauk og pipar og látið sjóða í eina klukkustund. Bætið þá saltkjötinu út í og látið sjóða í 40 mínútur. Þá eru rófur og gulrætur settar saman við og soðið áfram í 20 mínútur.

þriðjudagur, 10. febrúar 2015

Litríkur plokkfiskur

Plokkfiskur 500 gr. soðinn fiskur (má vera saltfiskur)
750 gr. soðnar kartöflur
1 blaðlaukur
4 hvítlauksrif
1 rautt chili
75 gr. smjör
3 matsk. hveiti eða spelt
1 tesk. turmerik
5 dl. mjólk
salt og pipar

Skerið blaðlaukinn í sneiðar og mýkið á pönnu í smjörinu. Gætið þess að laukurinn brúnist ekki. Hrærið hveitinu saman við og látið malla í nokkrar mínútur. Bætið þá turmerikinu við ásamt mjólkinni. Komið upp suðu, setjið hvítlauk og chili saman við og látið sjóða í 5-10 mínutur. Ef jafningurinn verður of þykkur bætið þá við meiri mjólk. Bragðbætið með salti og pipar og blandið fiskinum saman við. Skerið kartöflurnar í bita og bætið þeim að lokum út í. Hitið varlega þar til kartöflurnar eru heitar í gegn.

Dreifið saxaðri steinselju yfir og berið fram með rúgbrauði og smjöri.

fimmtudagur, 29. janúar 2015

Laxabaka

Baka með laxi Botn:
1 bolli spelt eða hveiti
80 gr. smjör
3 matsk. súrmjólk eða AB mjólk
2 matsk. sesamfræ
1 tesk. sjávarsalt  

Fylling:
250 gr. eldaður lax
1 blaðlaukur
100 gr. fetaostur
3 egg
1 dl. rjómi
1/2 tesk. svartur pipar

Hrærið saman allt sem á að fara í bökudeigið og fletjið út í bökudisk. Bakið botninn við 175° í 30 mínútur.

Brjótið laxinn í bita og leggið ofan á bökubotninn. Skerið blaðlaukinn í sneiðar og mýkið á pönnu en gætið þess að hann brúnist ekki. Hrærið saman eggjum, rjóma, fetaosti, blaðlauk og pipar og hellið yfir laxinn.

Bakið við 175° í ca. 30 mínútur.

sunnudagur, 25. janúar 2015

Skinkuhorn

Skinkuhorn 350 gr. fínt spelt
100 gr. gróft spelt
50 gr. pálmasykur
1 tesk. salt
1 pakki þurrger (12 gr.)
250 ml. mjólk
30 gr. smjör

Fylling:
4 matsk. hreinn rjómaostur
4-5 skinkusneiðar
200 gr. rifinn ostur

Ofan á:
1 egg
1 matsk. sesamfræ

Blandið þurrefnum og geri saman í skál. Bræðið smjörið, blandð því saman við mjólkina og hellið blöndunni saman við þurrefnin. Hnoðið deigið í 10 mínútur (þetta má gjarna gera í hrærivél og nota deigkrókinn). Breiðið diskaþurrku yfir skálina og látið standa á hlýjum stað í 45 mínútur. Hnoðið deigið lítillega og skiptið því í fjóra hluta.

Fletjið hvern huta út í kringlótta köku og penslið með rjómaostinum. Skerið hverja köku í 8 sneiðar (eins og pizzusneiðar) og dreifið skinkunni og rifna ostinum yfir. Rúllið sneiðunum upp (byrjið á breiðari endanum) og raðið á pappírsklædda bökunarplötu. Látið hornin lyfta sér á hlýjum stað í 20 mínútur. Penslið þau þá með sundurslegnu egginu, stráið sesamfræjunum yfir og bakið við 200° í 10-12 mínútur.

mánudagur, 8. desember 2014

Smákökur með hvítu súkkulaði

Smákökur með hvítu súkkulaði
100 gr. smjör
150 gr. púðursykur
50 gr. sykur
1 egg
1 tesk. vanilludropar
200 gr. hveiti
2 matsk. maizena mjöl
1 tesk. matarsódi
1/4 tesk. salt
200 gr. hvítt súkkulaði, saxað

Hrærið smjör, sykur og púðursykur vel saman. Bætið eggi og vanilludropum saman við og hrærið þar til hræran hefur blandast vel. Blandið þá þurrefnunum saman við og að lokum saxaða súkkulaðinu. Búið til litlar kúlur úr deiginu, setjið þær á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið við 175° í 10 mínútur.

miðvikudagur, 3. desember 2014

Súkkulaðikrem

Súkkulaði smjörkrem
100 gr. smjör
100 gr. flórsykur
1 egg
1/2 tesk. vanilludropar
150 gr. suðusúkkulaði

Smjör og flórsykur þeytt saman. Eggi og vanilludropum hrært út í smjörhræruna og að lokum bræddu súkkulaði.

Kremið er gott að nota ofan á skúffuköku eða á kökubotna.

sunnudagur, 30. nóvember 2014

Baka með brie osti og hráskinku

Baka með brie osti og hráskinku
Botn:
1 bolli spelt eða hveiti
80 gr. smjör
3 matsk. súrmjólk eða rjómi
1 matsk. sesamfræ  

Fylling:
1 smátt saxaður laukur
4 egg
1 peli rjómi
1 tesk. maldon salt
1 tesk. svartur pipar
1 brie ostur í sneiðum

Ofan á:
1 pakki hráskinka

Hrærið saman allt sem á að fara í bökudeigið og fletjið út í bökudisk. Bakið botninn við 175° í 30 mínútur.

Léttsteikið laukinn þar til hann er glær og dreifið honum yfir bökubotninn. Þeytið saman egg, rjóma og krydd og hellið yfir og raðið að lokum ostastneiðunum yfir. Bakið við 175° í ca. 30 mínútur.

 Látið bökuna kólna lítillega, rífið eða skerið hráskinkuna í bita og dreifið yfir.

sunnudagur, 16. nóvember 2014

Bláberjakaka

Hrákaka með bláberjum
Botn:
150 gr. döðlur
150 gr. möndlur
2 matsk. hunang
Hellið sjóðandi vatni yfir döðlurnar og látið standa í 15 mínútur. Síið vatnið frá og setjið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt möndlum og hunangi. Maukið vel og setjið í 22 cm. smelluform. Gott er að setja smjörpappír í borninn á forminu. Kælið botninn meðan fyllingin er útbúin.

Fylling: 
1 dl. kókosmjöl
1 dl. ristaðar kasjúhnetur
2 dl. bláber (mega vera frosin)
2 matsk. hunang
2-3 matsk. kókosolía (hitið krukkuna í vatnsbaði til að fá olíuna fljótandi)
2 tesk. sítrónusafi
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel. Smyrjið fyllingunni yfir botninn og kælið þar til kakan er borin fram.

Skreytið kökuna með ferskum bláberjum, ristuðum kókosflögum og rifnum lime berki. Gott er að bera hana fram með þeyttum rjóma.

sunnudagur, 9. nóvember 2014

Estragon kjúklingur

Kjúklingur með estragon sósu
10 - 15 kjúklingalæri
1 laukur
4 dl. rjómi
1 matsk. dijon sinnep
1/2 matsk. grófkorna sinnep
1 matsk. þurrkað estragon
salt og pipar eftir smekk
sósujafnari ef vill

 Brúnið kjúklingalærin á vel heitri pönnu og setjið þau til hliðar. Gott er að úrbeina lærin áður en þetta er gert en halda skinninu á þeim.

Saxið laukinn smátt og mýkið á pönnu. Best er að nota sömu pönnu og kjúklingurinn var brúnaður á og nýta fituna sem kom af kjúklingnum til að steikja laukinn. Hellið rjómanum út á og hitið að suðu. Bætið þá sinnepinu og estragoninu saman við og látið sjóða í 2-3 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Ef sósan er of þunn má þykkja hana með örlitlum sósujafnara.

Hellið sósunni í eldfast mót og raðið kjúklingabitunum ofan á. Bakið við 180° í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

sunnudagur, 26. október 2014

Blaðlauks lasagne

Blaðlauks lasagna
1 stór blaðlaukur
200 gr. spínat
2 hvítlauksrif
12 lasagne plötur
100 gr. rifinn ostur
salt og pipar

Sósa:
50 gr. smjör
2 matsk. hveiti
2,5 dl. mjólk
200 gr. kotasæla (ein lítil dós)
1/4 tesk. rifið múskat
salt og pipar

Skerið blaðlaukinn í sneiðar og látið krauma í 3-4 mínútur. Bætið þá spínatinu og hvítlauknum við og steikið í 2 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar.

Útbúið sósuna með því að bræða smjörið og hræra hveitinu saman við. Hellið mjólkinni smátt og smátt saman við og hrærið stöðugt í á meðan. Látið sjóða við vægan hita í 4-5 mínútur og gætið þess að sósan brenni ekki við. Bætið kotasælunni og múskatinu saman við og bragðbætið með salti og pipar.

Setjið 1/4 af hvítu sósunni í eldfast mót. Dreifið 1/3 af blaðlauksblöndunni yfir og raðið lasagne plötum ofan á. Endurtakið þar til allt er búið, endið á lasagne plötum og hvítri sósu. Stráið rifna ostinum yfir og bakið við 180° í 25-30 mínútur.