mánudagur, 21. apríl 2014

Saffran kartöflur

Kartöflur með saffran
750 gr. kartöflur
1/2 tesk. saffran
1/2 dl. sjóðandi vatn
50 gr. smjör
1/2 tesk. sjávarsalt
1/2 dl. ristuð sólblómafræ
1 dl. söxuð steinselja

Sjóðið kartöflurnar, afhýðið þær og skerið í bita. Ef notaðar eru nýjar kartöflur er gott að hafa hýðið á þeim. Setjið saffranið í litla skál, hellið sjóðandi vatninu yfir og látið standa í 5 mínútur. Bræðið smjörið á pönnu, setjið kartöflurnar út í og léttsteikið við vægan hita í nokkrar mínútur. Stráið saltinu yfir. Hellið saffranvatninu á pönnuna og veltið kartöflunum upp úr því. Bætið að lokum sólblómafræjunum og steinseljunni við og blandið varlega saman.

sunnudagur, 6. apríl 2014

Kjúklingur 65

Chicken 65
1 kg. beinlaus kjúklingur, bringur eða læri  

Marinering:
1 egg
1 matsk. ab mjólk
3 hvítlauksrif, söxuð
1 matsk. engifer, rifinn
1/2 tesk. svartur pipar
1/2 tesk. chiliduft
1 tesk. sjávarsalt

Sósa:
1 laukur
3 hvítlauksrif, söxuð
1 matsk. engifer, rifinn
1 tesk. cumin
1 tesk. koriander
1/2 tesk. chiliduft
1 tesk. paprikuduft
1 tesk. turmerik
1 tesk. tandoori krydd
5 kardimommur, steyttar í morteli
1/2 tesk. svartur pipar
1 tesk. sjávarsalt
1 dós saxaðir tómatar
1 dl. vatn

Skerið kjúklinginn í litla bita. Blandið saman öllu sem á að fara í marineringuna, hellið henni yfir kjúklinginn og látið standa í 4-6 klukkustundir.
Saxið lauk smátt og mýkið á pönnu ásamt hvítlauk og engifer. Bætið kjúklingnum ásamt marineringunni við og steikið áfram í nokkrar mínútur. Blandið þá kryddinu, tómötunum og vatninu við og látið sjóða undir loki í 15-20 mínútur. Ef sósan er of þunn takið þá lokið af síðustu mínúturnar.

sunnudagur, 23. mars 2014

Eplabaka Unnar

Frönsk eplabaka
3 plötur smjördeig
1-2 epli
6 tesk. kanelsykur (eða eftir smekk)
1 egg til að pensla með

Skiptið smjördeigsplötunum í tvennt og fletjið hvern hluta út í ca. 15x20 cm ferhyrning. Afhýðið og kjarnhreinsið eplin og skerið þau í þunnar sneiðar. Raðið eplunum á annan helming hvers hluta og stráið einni teskeið af kanelsykri yfir. Brjótið saman til að loka bökunum og klemmið kantana vel saman með gaffli. Penslið með sundurslegnu eggi og bakið við 200° í um 20 mínútur eða þar til bökurnar eru fallega brúnaðar og eplin elduð í gegn.

Berið fram með þeyttum rjóma eða góðum ís.

sunnudagur, 16. mars 2014

Quesadillur með chili og ólífum

Tortillur með chili og ólífum
4 tortillur
100 gr. rifinn ostur
50 gr. fetaostur
8 grænar ólífur
1 rautt chili, fræhreinsað
2 matsk. ferskt koriander (má sleppa eða nota aðrar kryddjurtir)
ólífuolía
paprikuduft

Setjið ost, fetaost, ólífur, chili og koriander í matvinnsluvél og maukið gróft. Smyrjið maukinu á tvær tortillakökur og leggið hinar tvær kökurnar ofan á. Penslið efri tortillurnar með ólífuolíu og stráið paprikudufti yfir. Pakkið hvorri köku um sig inn í álpappír og bakið við 200° í 5 mínútur. Takið kökurnar þá úr álpappírnum og bakið áfram í 5 mínútur. Skerið í sneiðar og berið fram heitt.

mánudagur, 10. mars 2014

Hrísgrjónabollur

Hrísgrjónaklattar

Frábær leið til að nýta afgang af soðnum hrísgrjónum!

500 gr. soðin hrísgrjón
3 egg
1 chili
2 hvítlauksrif
2 sm. bútur af engifer
1 dl. saxaðar kryddjurtir (t.d. steinselja, koriander eða mynta)
1 tesk. sjávarsalt
1/2 tesk. svartur pipar

Setjið hrísgrjónin í skál og hrærið eggjunum vel saman við. Fræhreinsið chilið og saxið smátt, rífið hvítlauk og engifer. Blandið saman við hrísgrjónin ásamt smátt söxuðum kryddjurtum. Kryddið með salti og pipar. Setjið hrísgrjónin með matskeið á vel heita pönnu, fletjið þau lítillega út og stekið í eina til tvær minútur á hvorri hlið. Berið fram strax með sætri chilisósu.

sunnudagur, 9. mars 2014

Piri piri kjúklingur

Piripiri kjúklingur
10 kjúklingalæri með skinni
3 rauð chili
1 sítróna (safinn eingöngu)
4 matsk olía
2 hvítlauksrif
1 matsk paprikuduft
2 tesk. sjávarsalt
1 steinseljubúnt
1 rauðlaukur

Byrjið á því að útbúa sósuna: setjið chili, sítónusafa, olíu, hvítlauksrif, krydd og steinselju í matvinnsluvél og maukið. Setjið sósuna í eldfast mót.
Steikið kjúklingalærin á skinnhliðinni í um 5 mínútur eða þar til þau eru fallega brúnuð (Mér finnst gott að taka beinið úr lærunum áður en þau eru steikt en það er ekki nauðsynlegt). Raðið lærunum ofan á sósuna með kjöthliðina niður og saltið örlítið. Skerið rauðlaukinn í sneiðar eða strimla og steikið upp úr kjúklingafitunni. Dreifið lauknum að lokum ofan á kjúklinginn. Bakið við 200° í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

laugardagur, 1. mars 2014

Döðlukonfekt

Döðlugott
400 gr. döðlur
250 gr. smjör
120 gr. pálmasykur (eða púðursykur)
6 dl. rice crispies
250 gr. dökkt súkkulaði - 70%

Setjið döðlur, smjör og sykur í pott og látið sjóða í nokkrar mínútur eða þar til döðlurnar eru vel uppleystar og karamella hefur myndast. Takið af hitanum og hrærið rice crispies saman við. Setjið blönduna í pappírsklætt form, ca. 25x35 cm og sléttið vel. Bræðið súkkulaðið og hellið yfir. Látið kólna vel áður en skorið í litla bita.

miðvikudagur, 26. febrúar 2014

Spaghetti með sítrónusósu

Sítrónupasta
500 gr. spaghetti
1 sítróna
100 gr. smjör
2,5 dl. rjómi
1 bolli rifinn parmesan ostur
salt og pipar

Sjóðið spaghettið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Setjið smjörið í pott og bræðið við vægan hita. Hellið rjómanum saman við og látið suðu koma upp. Rífið börkinn af sítrónunni og setjið hann ásamt safanum út í rjóma- og smjörblönduna. Hitið að suðu. Þegar spaghettið er soðið er það sigtað og sett í  stóra skál. Sósunni hellt yfir og blandað vel. Parmesan osturinn settur saman við og saltað og piprað eftir smekk.
Gott er að bera spaghettið fram með grænu salati og ristuðum fræjum.

sunnudagur, 23. febrúar 2014

Mangó raita

Mango raita
1 dós (350 gr.) grískt jógúrt
50 gr. smjör
2 tesk. sinnepsfræ
1 mangó
salt

Ristið sinnepsfræin á heitri pönnu, bræðið smjörið og blandið fræjunum saman við. Hrærið smjörblöndunni saman við jógúrtið. Skerið mangóið í smáa bita og hrærið þeim saman við jógúrtið. Bragðbætið með salti ef þarf og kælið vel.

fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Aspassúpa ömmu Áslaugar

Aspassúpa
50 gr. smjör
4 matsk. hveiti
1 líter kjötsoð
2 dósir aspas
1 peli rjómi
1 tesk. svartur pipar

Bræðið smjörið og hrærið hveitinu saman við. Látið krauma í nokkrar mínútur. Hellið heitu soðinu saman við og látið sjóða í 5 mínútur. Hellið þá soðinu af aspasinum saman við, piprið og bragðbætið með salti ef þarf. Rjómanum bætt við og suðan látin koma upp. Að lokum er aspasinum bætt út í og súpan hituð varlega að suðumarki.