sunnudagur, 11. nóvember 2018

Gróft rúgbrauð

Danskt rúgbrauð
210 gr. vatn
3 tesk. sjávarsalt
1 matsk. sykur
1 matsk. olía
150 gr. rúgmjöl
75 gr. hveiti
75 gr. heilhveiti eða gróft spelt
1/2 dl. sólblómafræ
1/2 dl. graskersfræ
2 matsk. sesamfræ
2 matsk. hörfræ
1 tesk. þurrger

Þetta brauð baka ég í brauðvélinni minni en það er auðvitað líka hægt að baka það í ofni.

Brauðvél:
Setjið öll hráefnin í formið í þeirri röð sem þau eru talin upp hér að ofan. Veljið almennt bakstursprógramm, stillið á minnstu brauðstærð og dekkstu skorpustillingu.

Í ofni:
Setjið öll hráefnin í hrærivélarskál og hnoðið vel saman með deigkrók. Setjið klút yfir skálina og látið deigið lyfta sér á hlýjum stað í eina klukkustund. Hnoðið deigið lítillega og setjið í smurt brauðform. Setjið klút yfir formið og látið lyfta sér í hálfa klukkustund. Bakið við 200° í um 35 mínútur.

sunnudagur, 4. desember 2016

Súkkulaðibitakökur með salthnetum

Súkkulaðibitakökur með salthnetum170 gr. smjör
1 bolli púðursykur
1 tesk. vanilludropar
2 egg
2 1/4 bolli hveiti
1 tesk. lyftiduft
1 tesk. matarsódi
1 bolli saxað súkkulaði
1 bolli grófsaxaðar salthnetur

Bræðið smjörið og látið kólna lítillega eða í um 5 mínútur. Setjið smjörið ásamt púðursykri og vanilludropum í hrærivélarskál og hrærið þar til ljóst og létt. Hrærið þá eggjunum saman við ásamt hveiti, matarsóda og lyftidufti. Blandið súkkulaðinu og hnetunum saman við og kælið deigið í ísskáp í 20 mínútur.

Setjið deigið á pappírsklædda bökunarplötu með tveimur teskeiðum og bakið við 175° í 12 mínútur.

sunnudagur, 28. ágúst 2016

Krækiberjahlaup

Krækiberjasulta
2 kg. krækiber eða einn líter af hrásaft
750 gr. sykur
1 pakki gult melatín

Hreinsið berin vel og maukið þau, annað hvort í hakkavél eða matvinnsluvél. Best er að gera þetta í litlum skömmtum. Setjið berin í sigti yfir stórri skál og látið standa í ísskáp yfir nótt til að ná sem mestri saft úr berjunum.

Mælið saftina, 2 kg. af berjum ætti að gefa um einn líter af saft.

Setjið saftina í pott og hitið að suðu. Hrærið mealtíninu saman við og bætið svo sykrinum rólega saman við. Komið upp suðu og látið sjóða í eina mínútu. Fleytið alla froðu ofan af hlaupinu og setjið í sótthreinsaðar krukkur.

laugardagur, 20. ágúst 2016

Fyllt paprika með kínóa

Fylltar paprikur með kínóa
5 paprikur
3/4 bolli kínóa
1 dós svartar baunir (eða aðrar baunir eftir smekk)
200 gr. maisbaunir
1 blaðlaukur
300 gr. salsa sósa (1 krukka)
1 tesk. cumin
1 tesk. turmerik
1 tesk. paprikuduft
Salt og svartur pipar

Sjóðið kínóað í 1 1/2 bolla af vatni þar til það er mjúkt. Setjið það í stóra skál ásamt baunum, maisbaunum, söxuðum blaðlauk, sósu og kryddi.

Skerið paprikurnar í tvennt og hreinsið kjarnann og fræin úr þeim. Raðið þeim í smurt eldfast mót og skiptið fyllingunni á milli þeirra.

Setjið álpappír yfir mótið og bakið við 200° í 50 mínútur. Takið álpappírinn af mótinu og bakið áfram í 10 mínútur. Berið fram með góðu salati og sýrðum rjóma.

þriðjudagur, 16. ágúst 2016

Smjördeigsbaka með penne pasta og mascarpone osti

Penne pastabaka með mascarpone osti 320 gr. smjördeig
300 gr. penne pasta
250 gr. mascarpone ostur
60 gr. rifinn parmesan ostur
80 gr. smjör
250 gr. sveppir
1 stór blaðlaukur
1 rautt chili
salt og svartur pipar

Byrjið á að sjóða pastað um tveimur mínútum skemur en sagt er til á pakkanum.

Skerið sveppi og blaðlauk í sneiðar og steikið við vægan hita í smjörinu. Setjið smátt saxað chili saman við og blandið grænmetinu saman við mascarpone ostinn. Bætið helmingnum af rifna parmesan ostinum saman við ásamt pastanu og bragðbætið með salti og pipar.

Fletjið smjördeigið þunnt út og setjið í 24 sm smelluform. Pikkið deigið með gaffli og hellið pastafyllingunni í deigskelina. Dreifið afganginum af rifna parmesan ostinum yfir og brjótið hliðarnar á smjördeiginu yfir fyllinguna. Bakið við 200° í um 30 mínútur.

Berið fram með góðu salati og rifnum parmesan osti.

laugardagur, 21. maí 2016

Blaðlauksbaka með cheddar osti

Blaðlauksbaka með cheddar osti
Botn:
1 bolli hveiti
80 gr. smjör
3 matsk. ab mjólk eða súrmjólk
1/2 tesk. salt

Fylling:
2 blaðlaukar
50 gr. smjör
4 egg
1 dl. kotasæla
1 dl. rjómi
50 gr. rifinn cheddar ostur
salt og pipar

Mylsna ofan á:
75 gr. rifinn cheddar ostur
25. gr. brauðmylsna
25 gr. heslihnetuflögur

Hnoðið saman hveiti smjör og ab mjólk - gott er að gera þetta í hrærivél eða matvinnsluvél. Fletjið deigið út í bökudisk og bakið undir fargi við 175° í 30 mínútur.

Skerið blaðlauk í sneiðar og steikið í smjörinu við vægan hita þar til blaðlaukurinn er mjúkur. Hrærið saman eggjum, rjóma, kotasælu og rifnum cheddar osti. Bragðbætið með salti og pipar og blandið blaðlauknum saman við. Setjið fyllinguna í bökubotninn og bakið við 175° í 20 mínútur.

Blandið saman rifnum cheddar osti, brauðmylsnu og heslihnetuflögum og dreifið yfir bökuna. Bakið áfram við 175° í 20 mínútur.

sunnudagur, 1. maí 2016

Katalónsk graskerssúpa

Spænsk graskerssúpa 500 gr. eldað grasker
3 perur
1 laukur
25 gr. smjör
2 matsk. ólífuolía
1/2 l. vatn eða grænmetissoð
100 gr. heslihnetur
100 gr. sykur
100 gr. gráðostur
salt og pipar

Saxið laukinn smátt, afhýðið perurnar og skerið þær í bita. Steikið lauk, perur og grasker við vægan hita í smjörinu og olíunni í um 10 mínútur. Bætið vatni eða soði við og sjóðið í um 15 mínútur. Kryddið með salti og pipar og maukið súpuna.

Heslihnetupralín:
Setjið heslihnetur og sykur á pönnu og hitið varlega þar til sykurinn bráðnar og verður að karamellu. Hellið blöndunni á bökunarpappír og látið kólna. Þegar blandan er orðin köld er hún söxuð gróft.

Berið súpuna fram heita og setjið í hverja skál mulinn gráðost og heslihnetupralín. Dreifið að lokum nokkrum dropum af góðri ólífuolíu yfir hvern disk.

fimmtudagur, 28. apríl 2016

Súkkulaðipavlova

Súkkulaðipavlova
5 eggjahvítur
250 gr. sykur
3 matsk. kakó
1 tesk. balsam edik
50 gr. saxað suðusúkkulaði

Ofan á: 
3 dl. þeyttur rjómi
250 gr. hindber
rifið súkkulaði

Eggjahvítur og sykur þeytt þar til stíft og glansandi. Kakó og ediki blandað varlega saman við.

20 - 23 sm. hringur teiknaður á bökunarpappír og marensinn settur inn í hann, athugið að hann á að vera frekar hár. Sett inn í 180° heitan ofn, hitinn strax lækkaður í 150° og bakað í 1 klukkustund og 15 mínútur. Þá er slökkt á ofninum og marensinn látinn kólna í honum.

Rjóminn settur ofan á kökuna þegar hún er orðin köld og skreytt með hindberjum og rifnu súkkulaði.

Best er að setja rjómann og berin á kökuna rétt áður en á að borða hana.

sunnudagur, 17. apríl 2016

Pan con tomate

Tómatbrauð
1 snittubrauð
2-3 vel þroskaðir tómatar
1 hvítlauksrif
Góð ólífuolía
Sjávarsalt

Skerið brauðið í tvennt og kljúfið helmingana eftir endilöngu. Setjið í heitan ofn og bakið í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er stökkt.

Afhýðið hvítlauksrifið og nuddið brauðið með því (mér finnst koma passlegt hvítlauksbragð með því að strjúka tvisvar langsum yfir hvern helming).

Skerið tómatana í tvennt og hreinsið fræin úr þeim. Rífið á grófu rifjárni en passið að skilja hýðið eftir. Smyrjið tómatmaukinu jafnt yfir brauðið.

Sáldrið að lokum ólífuolíu og sjávarsalti yfir og skerið brauðið í hæfilegar sneiðar.

laugardagur, 16. apríl 2016

Tortilla Española - Spænsk eggjakaka

/>
4 stórar kartöflur
1 laukur
4 egg
1/2 - 1 líter ólífuolía
Sjávarsalt eftir smekk

Afhýðið kartöflurnar, skerið þær í tvennt og síðan í þunnar sneiðar. Skerið laukinn í tvennt og síðan í þunnar sneiðar.

Ólífuolíunni hellt í pott, kartöflurnar settar út í kalda olíuna, hitað að suðu og látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur. Lauknum bætt við og soðið áfram í 10 mínútur. Blöndunni hellt í sigti og látið standa þar til olían hefur runnið vel af. Geymið olíuna því hana má vel nota aftur.

Brjótið eggin í skál, hrærið þau lauslega saman og saltið. Blandið kartöflunum og lauknum saman við og hellið blöndunni á djúpa ca. 20 sm. víða pönnu. Eldið eggjakökuna við vægan hita þar til eggin eru nánast alveg hlaupin. Þá er eggjakökunni snúið við og hún steikt á hinni hliðinni.

Tortillan er góð bæði heit og köld.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...