sunnudagur, 16. nóvember 2014

Bláberjakaka

Hrákaka með bláberjum
Botn:
150 gr. döðlur
150 gr. möndlur
2 matsk. hunang
Hellið sjóðandi vatni yfir döðlurnar og látið standa í 15 mínútur. Síið vatnið frá og setjið döðlurnar í matvinnsluvél ásamt möndlum og hunangi. Maukið vel og setjið í 22 cm. smelluform. Gott er að setja smjörpappír í borninn á forminu. Kælið botninn meðan fyllingin er útbúin.

Fylling: 
1 dl. kókosmjöl
1 dl. ristaðar kasjúhnetur
2 dl. bláber (mega vera frosin)
2 matsk. hunang
2-3 matsk. kókosolía (hitið krukkuna í vatnsbaði til að fá olíuna fljótandi)
2 tesk. sítrónusafi
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel. Smyrjið fyllingunni yfir botninn og kælið þar til kakan er borin fram.

Skreytið kökuna með ferskum bláberjum, ristuðum kókosflögum og rifnum lime berki. Gott er að bera hana fram með þeyttum rjóma.

sunnudagur, 9. nóvember 2014

Estragon kjúklingur

Kjúklingur með estragon sósu
10 - 15 kjúklingalæri
1 laukur
4 dl. rjómi
1 matsk. dijon sinnep
1/2 matsk. grófkorna sinnep
1 matsk. þurrkað estragon
salt og pipar eftir smekk
sósujafnari ef vill

 Brúnið kjúklingalærin á vel heitri pönnu og setjið þau til hliðar. Gott er að úrbeina lærin áður en þetta er gert en halda skinninu á þeim.

Saxið laukinn smátt og mýkið á pönnu. Best er að nota sömu pönnu og kjúklingurinn var brúnaður á og nýta fituna sem kom af kjúklingnum til að steikja laukinn. Hellið rjómanum út á og hitið að suðu. Bætið þá sinnepinu og estragoninu saman við og látið sjóða í 2-3 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Ef sósan er of þunn má þykkja hana með örlitlum sósujafnara.

Hellið sósunni í eldfast mót og raðið kjúklingabitunum ofan á. Bakið við 180° í 30-40 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

sunnudagur, 26. október 2014

Blaðlauks lasagne

Blaðlauks lasagna
1 stór blaðlaukur
200 gr. spínat
2 hvítlauksrif
12 lasagne plötur
100 gr. rifinn ostur
salt og pipar

Sósa:
50 gr. smjör
2 matsk. hveiti
2,5 dl. mjólk
200 gr. kotasæla (ein lítil dós)
1/4 tesk. rifið múskat
salt og pipar

Skerið blaðlaukinn í sneiðar og látið krauma í 3-4 mínútur. Bætið þá spínatinu og hvítlauknum við og steikið í 2 mínútur. Bragðbætið með salti og pipar.

Útbúið sósuna með því að bræða smjörið og hræra hveitinu saman við. Hellið mjólkinni smátt og smátt saman við og hrærið stöðugt í á meðan. Látið sjóða við vægan hita í 4-5 mínútur og gætið þess að sósan brenni ekki við. Bætið kotasælunni og múskatinu saman við og bragðbætið með salti og pipar.

Setjið 1/4 af hvítu sósunni í eldfast mót. Dreifið 1/3 af blaðlauksblöndunni yfir og raðið lasagne plötum ofan á. Endurtakið þar til allt er búið, endið á lasagne plötum og hvítri sósu. Stráið rifna ostinum yfir og bakið við 180° í 25-30 mínútur.

mánudagur, 13. október 2014

BBQ kjúklingaréttur

BBQ kjúklingur
1 kg. beinlaus kjúklingur, bringur eða læri
200 gr. BBQ sósa
100 gr. púðursykur
200 gr. apríkósumarmelaði
1 dl. sojasósa
1/2 dl. balsamedik
3 dl. rjómi

Skerið kjúklinginn í litla bita, brúnið hann á pönnu þar til hann er eldaður í gegn og setjið í eldfast mót. Setjið allt sem á að fara í sósuna í pott og hitið að suðu. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og hitið réttinn í ofni við 200° í 15 mínútur.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

sunnudagur, 28. september 2014

Gerlausar bollur með gulrótum og döðlum

Gerlausar brauðbollur með gulrótum og döðlum
350 gr. spelt (gott að nota fínt og gróft til helminga)
2 tesk. lyftiduft
1 tesk. sjávarsalt
1/2 dl. sesamfræ
4-5 d. AB mjólk
2 matsk. olía
1 rifin gulrót
100 gr. saxaðar döðlur

Setjið þurrefnin, sesamfræin, gulrótina og döðlurnar í skál og blandið saman. Hellið AB mjólkinni og olíunni saman við og hrærið þar til deigið er samfellt. Mótið 9 bollur úr deiginu og bakið við 200° í 25 mínútur.

miðvikudagur, 13. ágúst 2014

Rifsberjahlaup

Rifsberjasulta
1 kg. rifsber með stilkum
1 kg. sykur

Skolið berin og setjið í pott ásamt sykrinum. Komið upp góðri suðu og látið sjóða í 3 mínútur. Sigtið hlaupið og látið það standa í nokkrar mínútur. Veiðið þá mestu froðuna ofan af og setjið hlaupið í sótthreinsaðar krukkur.

Til að hlaupið verði vel stíft er best að berin séu ekki of þroskuð.

Ef sultan hleypur ekki má setja hana aftur í pottinn, sjóða upp á henni með sultuhleypi og setja hana svo í krukkur.

föstudagur, 1. ágúst 2014

Döðlubrauð

döðlubrauð
200 gr. döðlur
2 dl. vatn
50 gr. smjör
1 egg
1 dl. pálmasykur
5 dl. spelt (gott að nota fínt og gróft til helminga)
1 tesk. sjávarsalt
1/​2 tesk. mat­ar­sódi
1/​2 tesk. lyfti­duft
1 dl. mjólk

Döðlur, vatn og smjör er sett sam­an í pott og soðið í mauk. Eggið og sykurinn þeytt sam­an þar til bland­an verður ljós og létt. Döðlumaukið kælt lítillega og blandað saman við eggjahræruna. Þurrefnunum blandað saman við og og að lokum mjólkinni.

Deigið er sett í smurt og pappírsklætt form og bakað við 180° í um 45 mínútur.

laugardagur, 12. júlí 2014

Súkkulaðikaka

Hveitilaus súkkulaðikaka
200 gr. pálmasykur
200 gr. smjör
250 gr. dökkt súkkulaði
1 dl. sterkt kaffi
4 egg

Bræðið sykur, smjör og súkkulaði í potti. Setjið kaffið saman við. Handþeytið eggin og hrærið þeim saman við súkkulaðiblönduna þegar hún hefur kólnað. Bakið í smurðu formi við 175° í 25-35 mínútur. Gætið þess að ofbaka kökuna ekki.

Skreytið kökuna með ferskum berjum og berið fram volga með þeyttum rjóma eða vanilluís

laugardagur, 5. júlí 2014

Pottbrauð

New York Times brauð
Þetta brauð er líklega þekktast sem New York Times brauðið og er alveg ótrúlega einfalt að búa til. Eina sem þarf er nægur tími til að leyfa deiginu að hvíla.

3 bollar spelt - gott að nota gróft og fínt til helminga
1 dl. sólblómafræ
1/4 tesk. þurrger
2 tesk. sjávarsalt
1 3/4 bolli kalt vatn (úr krananum)

Setjið þurrefnin í skál og blandið þeim saman. Hellið vatninu saman við og hrærið með sleif þar til deigið hefur samlagast. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið standa á hlýjum stað í 12-18 klukkustundir.

Setjið ofnpott með loki í bakaraofninn og hitið í 230°. Smyrjið pottinn og setjið jafnvel bökunarpappír í botninn á honum. Hellið deiginu í pottinn, setjið lokið á og bakið í 30 mínútur. Takið þá lokið af pottinum og bakið áfram í 10 mínútur.

Ef ekki er til ofnpottur má nota eldfast mót með loki.

fimmtudagur, 12. júní 2014

Graflaxsósa

Graflaxssósa
1 dl. sýrður rjómi
1 dl. majones
2 matsk. dijon sinnep
2 matsk. hlynsíróp
1 matsk. þurrkað dill
salt og pipar

Majones og sýrður rjómi hrært saman. Sinnepi og hlynsírópi blandað saman við og bragðbætt með salti og pipar ef þarf. Dillið er að lokum sett saman við og sósan kæld fram að framleiðslu.

Borin fram með gröfnum laxi eða silungi